Innlent

Verðbréfamiðlarar veðja á HM

Verðbréfamiðlarar eru nú með augun á HM.
Verðbréfamiðlarar eru nú með augun á HM.
Árangur bandaríska landsliðsins á Heimsmeistaramótinu í Knattspyrnu hefur jákvæð áhrif á andrúmsloftið á Wall Street. Samkvæmt Reuters hafa verðbréfamiðlarar notfært sér frekar dræma viðskiptadaga til að einblína á fótboltann. Viðskipti hafa gengið hægt fyrir sig þessa vikuna en það hefur ekki sést á gólfum verðbréfahallarinnar.

"Fjöldi fólks fylgist með leikjunum og eru harðir stuðningsmenn," segir Gordon Charlop, yfirmaður öryggismála í Verðbréfahöllinni í New York. Meðan fréttamaður Reuters ræddi við Gordon mátti heyra fagnaðarlæti verðbréfamiðlarana í kringum hann þegar Bandaríkin jöfnuðu á móti Slóveníu á föstudaginn.

Peter Kenny, starfsmaður verðbréfafyrirtækis í New Jersey sagði heimsmeistarakeppnina verð orðin fastan lið á skrifstofunni. "Það eru allir að horfa. Við höfum fjölda stöðva en það vilja bara allir horfa á boltann."

Þrátt fyrir að þessi mikli fótboltaáhugi sé vel skiljanlegur eru sumir sem myndu frekar kjósa að verðbréfamiðlararnir hefðu augun á vísitölum en rúllandi boltum. Miðlari sem Reuters ræddi við sagði yfirmann sinn svo reiðan yfir þessum skyndilega fótboltaáhuga að nú stælust starfsmenn til að horfa á boltann á internetinu í staðinn fyrir á sjónvarpsskjáunum.

Og auðvitað er mikið um veðmál þegar verðbréfamiðlarar, sem hafa atvinnu sína af því að veðja á gjaldmiðla og fall og uppgang fyrirtækja, eiga í hlut. "Ég hef aldrei séð svona marga stunda veðmál í vinnunni," segir verðbréfamiðlarinn Kruszenski sem kennir sumrinu um litla stemningu á hlutabréfamörkuðum. Hann spáir uppgangi á næstunni en það fari jú eftir því hvernig Bandaríkjunum gangi á HM.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×