Íslenski boltinn

Guðjón Baldvinsson á hækjum: Lærið blés bara út eins og blaðra

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Guðjón í leik KR og Stjörnunnar fyrr í sumar.
Guðjón í leik KR og Stjörnunnar fyrr í sumar. Fréttablaðið/Anton

Guðjón Baldvinsson, sóknarmaður KR, lenti í hörðu samstuði við við Árna Frey Ásgeirsson markmann Keflavíkur í markalausu jafntefli liðanna í gær. Guðjón var borinn af velli.

Hann hafði aðeins verið inni á vellinum í fimm mínútur þegar atvikið gerðist, undir lok leiksins.

"Ég ligg bara í sófanum og geng um með hækjur," sagði Guðjón við Vísi í dag. "Ég er með þrýsting á lærinu en ég hitti sjúkraþjálfara seinna í dag. Það kemur samt væntanlega ekkert í ljós þar, ekki fyrr en það er hætt að blæða inn á þetta eftir nokkra daga," sagði Guðjón.

Guðjón vonar að hann verði ekki lengi frá og nefndi 10 til 12 daga í því samhengi. "En ef það hefur blætt mikið inn á þetta gæti það orðið miklu lengur," sagði Guðjón sem er mjög bólginn.

"Lærið blés bara út eins og blaðra. Þegar við tókum klakann af kom bara í ljós risa kúla á lærinu," sagði Guðjón sem var hinn hressasti og bjartsýnasti þrátt fyrir aðstæður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×