Tíska og hönnun

Þrívíddarpúsl fékk hönnunarverðlaun

Páll Baldvin Baldvinsson skrifar
Tillaga hönnunarstofunnar Björg í Bú var verðlaunuð.
Tillaga hönnunarstofunnar Björg í Bú var verðlaunuð.
Á baráttudag verkalýðsins voru veitt verðlaun í hönnunarsamkeppni í anda myndhöggvarans Ásmundar Sveinssonar, sem verslunin Kraum, Listasafn Reykjavíkur og Hönnunarmiðstöð Íslands standa að. Verðlaunuð var tillaga hönnunarstofunnar Björg í Bú sem er þrívíddar-púsluspil sem raða má saman á ótal vegu án þess að vera bundinn af fyrirfram gefinni lausn. Tvívíðir hlutar spilsins eru unnir út frá kunnuglegum formum í myndheimi Ásmundar, sem þátttakandinn getur raðað saman í þrívídd og með því skapað sinn eigin skúlptúr. Hluturinn hvetur til leiks og sköpunar þar sem viðfangsefnið er myndbygging og jafnvægissamspil forma í þrívídd eða þau listrænu grunnatriði sem Ásmundur glímdi alla tíð við í verkum sínum.

Björg í bú eru hönnuðirnir Edda Gylfadóttir, Guðrún Hjörleifsdóttir og Helga Björg Jónasardóttir. Hljóta þær verðlaunafé að upphæð 500.000 krónur auk þess sem varan verður þróuð áfram til framleiðslu og seld í verslunum Kraums í Aðalstræti og á Kjarvalsstöðum og í safnverslunum Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsi og Ásmundarsafni. Verðlaunaféð er sameiginlegt framlag frá Kraumi, Listasafni Reykjavíkur, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins.

Vinningstillögurnar ásamt þrettán öðrum sem þóttu skara fram úr verða til sýnis í Ásmundarsafni fram til 16. maí. Þetta er í annað sinn sem þessir sömu aðilar standa fyrir hönnunarsamkeppni þar sem skírskotað er til einstaks listamanns. Í fyrra var það Erró, og væntingar standa til að framhald verði á samstarfinu í framtíðinni.

Samkeppnin, hönnun í anda Ásmundar, var opin öllum. Í samkeppnislýsingu var óskað eftir tillögum að nytjahlut sem endurspegla skyldi hugarheim og verk myndhöggvarans Ásmundar Sveinssonar. Innsendar tillögur í keppnina voru 68 og voru þær allar teknar til dóms. Af þeim voru 15 tillögur valdar til að keppa um verðlaunasæti og til sýningar í Ásmundarsafni næstu tvær vikurnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×