Enski boltinn

Reina: Liverpool verður að styrkja sig til að halda sínum bestu mönnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
José Reina, markvörður Liverpool.
José Reina, markvörður Liverpool. Mynd/Nordic Photos/Getty
José Reina, markvörður Liverpool, segir að Liverpool sé ekki eins sterkt og Arsenal, Chelsea, Tottenham eða Manchester-félögin. Hann segir að Liverpool eigi þó möguleika á Meistaradeildarsæti en það verður erfitt að gera betur en fyrrnefnd lið í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð.

„Við verðum að enda tímabilið í betra sæti en við erum í dag (9. sæti) og við verðum að halda áfram að byggja liðið upp næstu árin til þess að vera samkeppnishæfir. Ef það tekst ekki þá verður erfitt fyrir félagið að halda sínum stærstu stjörnum," sagði José Reina við ESPNsoccernet.

„Við erum ekki með eins sterkt lið og Man City, Arsenal, Man United, Chelsea eða Tottenham og þess vegna verðum við að styrkja leikmannahópinn á næstunni. Eins og staðan er í dag þá er ómögulegt fyrir okkur að keppa sem dæmi við Chelsea í 9 mánuði. Það viljum við hinsvegar," segir Reina og hann segir að samkeppnin sé alltaf að aukast í ensku úrvalsdeildinni.

Jose Reina í leik á móti Stoke.Mynd/AFP
„Það eru öll lið í Englandi að byggja upp sterka leikmannahópa og við verðum að gera það sama ef að við ætlum að vera samkeppnishæfir," sagði Reina. Liverpool er sem stendur níu stigum á eftir toppliðum Chelsea og Manchester United og sex stigum á eftir Manchester City sem er í síðasta Meistaradeildarsætinu.

„Við eigum möguleika á því að ná einu af efstu fjórum sætunum í vor en til að það takist þá þurfum við að spila betur en að undanförnu. Ef að við spilum ekki betur verður það mjög, mjög, mjög erfitt að tryggja okkur Meistaradeildarasæti," sagði Reina. Liverpool hefur náð í þrettán stig af átján mögulegum í síðustu sex leikjum og Reina hefur haldið hreinu í þremur þeirra.

Jose Reina og Rafael Benitez,Mynd/Nordic Photos/Getty
„Rafa [Benítez] var elskaður í Liverpool en ég tel að það sé kominn tími á það að stuðningsmennirnir fari að standa að baki Roy og styðja hann hundrað prósent. Ég held að það séu ekki margar gagnrýnisraddir þarna úti hvort sem er," sagði Reina sem hefur haldið alls fimm sinnum hreinu í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu eða í 36 prósent leikjanna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×