Enski boltinn

Glazer-fjölskyldan ætlar að greiða niður 220 milljón punda lán

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Glazer-fjölskyldan er ekki mjög vinsæl á Old Trafford.
Glazer-fjölskyldan er ekki mjög vinsæl á Old Trafford. Mynd/AFP
Amerísku eigendur Manchester United hafa fundið pening til þess að greiða niður 220 milljón punda lán sem liggur á félaginu og minnka þar með skuldahalann. Peningarnir koma úr þeirra eigin vasa.

Skuldir Manchester United eru taldar vera meira en 720 milljónir punda og það er taprekstur á félaginu þrátt fyrir mikla veltu vegna gríðarlega vaxtagreiðslna af þessum miklu skuldum.

Lánin sem Glazer-fjölskyldan ætlar að greiða niður núna eru tilkomin þegar hún tók sér lán til að kaupa félagið fyrir 790 milljónir punda árið 2005.

Joel Glazer hefur skrifað stjórn Manchester United þar sem hann segir að lánið verði greitt upp að fullu mánudaginn 22. nóvember.

Glazer-fjölskyldan mun með þessu létta mikið af skuldapressunni á félaginu en það er þó ekkert víst að þetta nægi til að minnka óvinsældir hennar meðal stuðningsmanna United sem flestir vilja losna við amerísku eigendurna sem fyrst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×