Innlent

Níu Fáfnisliðar krefja ríkið um skaðabætur

Það var í húsinu lengst til hægri á myndinni sem mennirnir voru handteknir. Félagsheimilið hefur nú verið flutt í Hafnarfjörð.
Fréttablaðið/rósa
Það var í húsinu lengst til hægri á myndinni sem mennirnir voru handteknir. Félagsheimilið hefur nú verið flutt í Hafnarfjörð. Fréttablaðið/rósa

Níu núverandi og fyrrverandi félagar í vélhjólaklúbbnum Fáfni hafa stefnt ríkinu til greiðslu skaðabóta vegna ólögmætrar handtöku. Sjö þeirra krefjast 600 þúsund króna í bætur og tveir krefjast einnar milljónar.

Alls voru tíu Fáfnisliðar handteknir í félagsmiðstöð klúbbsins við Frakkastíg að kvöldi 4. júlí 2007. Lögregla taldi ljóst að gengið hefði verið í skrokk á manni í húsinu og að vopnum hefði verið beitt – skiptilykli, járnstöng og öðrum verkfærum. Hinn slasaði var félagsmaður á leið úr Fáfni og mun hafa verið á staðnum til að skila búnaði merktum klúbbnum.

Á meðal hinna handteknu voru Einar Marteinsson, núverandi formaður klúbbsins, og Jón Trausti Lúthersson, fyrrverandi formaður. Átta hinna handteknu var haldið í fangelsi í tæpan sólarhring. Einar og annar maður voru taldir hafa staðið einir að árásinni og sátu þeir í gæsluvarðhaldi í eina viku. Lögregla felldi málið síðan formlega niður í maí í fyrra.

Einn mannanna hefur þegar fengið dæmdar bætur vegna handtökunnar. Honum var haldið í nítján tíma eftir handtökuna, jafnvel þótt þolandi árásarinnar hefði strax greint lögreglu frá því hverjir hefðu ráðist á hann.

Komst dómurinn að því að handtakan hefði verið óþörf og ólögmæt og manninum dæmdar 100 þúsund krónur í bætur, einn tíunda af þeirri milljón sem hann fór fram á.

Hinir níu fylgja nú í kjölfarið. Einar og sá sem sætti gæsluvarðhaldi með honum krefjast milljónar en hinir 600 þúsund króna.

Sá sem þegar hefur fengið bætur fékk gjafsókn til að reka málið. Gjafsóknarnefnd hafnaði hins vegar umsóknum hinna með þeim rökum að málin væru fyrnd, enda væru meira en sex mánuðir síðan þeim var tilkynnt bréfleiðis um að málið hefði verið fellt niður. Þeir kannast hins vegar ekki við að hafa fengið slíkt bréf og má því búast við því að tekist verði á um þetta atriði fyrir dómi.

Sjö málanna verða tekin fyrir í héraðsdómi á þriðjudaginn kemur, málflutningur í einu málanna er yfirstaðinn og málflutningur í máli Einars er á dagskrá í september. - sh

Einar marteinsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×