Innlent

Við samningslok liggja kostirnir skýrt fyrir

Pallborðið Samtökin Sterkara Ísland sem vinna að aðild Íslands að ESB stóðu fyrir fundi í Iðnó.
 Fréttablaðið/GVA
Pallborðið Samtökin Sterkara Ísland sem vinna að aðild Íslands að ESB stóðu fyrir fundi í Iðnó. Fréttablaðið/GVA

Samstaða var um að ljúka aðildar­viðræðum við Evrópusambandið (ESB) og að þingmenn kysu um niðurstöðuna, í pallborði og hjá frummælendum á nýafstaðinni morgunráðstefnu samtakanna Sterkara Ísland.

Pallborðið skipuðu Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður Vinstri grænna. Guðlaugur og Katrín kváðust bæði á móti aðild, en Valgerður er henni fylgjandi.

Öll töldu þau mikilvægt að færa umræðu um aðild að ESB í málefnalegra horf og vinna að því að tryggja gagnsætt samningaferli. Guðlaugur Þór taldi málið líklegt til þess að skilja eftir sig djúp sár hjá þjóðinni, sár sem gengju jafnvel þvert á flokka og fjölskyldur. Til að draga úr sárindum taldi hann skynsamlegt að setja samningaferlinu tímamörk og kvaðst vilja fá að sjá dagsetningu um hvenær kosið yrði um aðild. Þá sagðist hann óttast að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar létu aðra hagsmuni víkja fyrir áhuga sínum á að ganga í ESB.

Í framsögu lýsti Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, efasemdum um inngöngu í ESB, en sagðist þó vilja klára ferlið sem hafið væri. „Mín skoðun er sú að betra sé að fyrir liggi samningur, enda liggi þá skýrt fyrir hverjir kostirnir eru," sagði hún.

Þá sagðist G. Valdimar Valdimarsson, formaður alþjóðanefndar Framsóknarflokksins, ekki trúa því að framsóknarmenn, sjálfstæðismenn og vinstri grænir væru tilbúnir að treysta Samfylkingu og embættismönnum fyrir ákvörðunum er vörðuðu samningsmarkmið og áherslur í íslenskum landbúnaði í komandi framtíð. - óká





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×