Fótbolti

Líkur á að það verði engar framlengingar á HM 2014

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sepp Blatter, forseti FIFA.
Sepp Blatter, forseti FIFA. Mynd/AFP
Sepp Blatter, forseti FIFA, vill að stjórn sambandsins íhugi það alvarlega að fella niður framlengingar í úrslitakeppni heimsmeistarakeppninnar í fótbolta. Blatter er óánægður með leikaðferð liða í framlengingu sem leggja þá höfuðáherslu á að fá ekki á sig mark.

„Við gætum komið í veg fyrir þetta með því að fara beint í vítaspyrnukeppni eða með því að endurvekja gullmarkið," sagði Sepp Blatter í viðtali við heimasíðu FIFA.

Gullmarkið var notað á HM 1998 og HM 2002 en þá ræður fyrsta mark í framlengingu úrslitunum í leiknum. Blatter var ekki sáttur með sum lið á HM í sumar sem honum fannst fara alltof varnarsinnuð inn í sína leiki.

„Við urðum vitni af því að sum lið gerðu allt til þess að tapa ekki og að jafntefli var þeirra markmið. Við verðum að finna leiðir til að ýta undir frjálsan og flottan fótbolta á stórmótum eins og HM, þar sem öll lið spila til sigurs," sagði Blatter.

Þessar tillögur Sepp Blatter verða teknar fyrir á fundi fótbolta-, tækni- og þróunarnefnda FIFA þegar þær hittast 18. október og greinargerðir af þeim fundi verða síðan teknar fyrir á fundi framkvæmdanefndar FIFA í Zurich 28. til 29. október.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×