Fótbolti

Hólmfríður með tvö glæsimörk í nótt - annað beint úr aukaspyrnu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hólmfríður Magnúsdóttir í landsleik við Króatíu á dögunum.
Hólmfríður Magnúsdóttir í landsleik við Króatíu á dögunum. Mynd/Valli
Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði bæði mörk Philadelphia Independence í 2-2 jafntefli á móti Boston Breakers í bandarísku atvinnumannadeildinni í nótt. Hólmfríður skoraði mörkin sín með tveggja mínútna millibili í fyrri hálfleik og það þótt að spila leikinn sem bakvörður.

„Í heildina var ég mjög sáttur með frammistöðuna. Fríða var frábær og skapaði mikla hættu þegar hún kom fram völlinn úr vörninni," sagði Paul Riley, þjálfari Independence.

Fyrra markið skoraði Hólmfríður beint úr aukaspyrnu af um 27 metra færi. Markið kom á 28. mínútu og tveimur mínútum síðar kom hún Philadelphia í 2-1 með skoti í stöngina og inn frá vítateigshorninu eftir sendingu frá Caroline Seger.

Philadelphia Independence liðið spilaði í bleikum búningum í gær til stuðningar krabbameinsátakinu "Project Pink" og það er óhætt að segja að Hólmfríður hafi fundið sig vel í bleika búningnum.

Philadelphia Independence hélt því öðru sæti deildarinnar og er áfram tveimur stigum á undan Boston Breakers en 11 stigum á eftir toppliði FC Gold Pride.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×