Fótbolti

Iniesta tryggði Spáni sinn fyrsta heimsmeistaratitil

Elvar Geir Magnússon skrifar
Sigurkossinn.
Sigurkossinn. AFP

Spánverjar eru heimsmeistarar í fótbolta. Þeir tryggðu sér titilinn með sigri á Hollandi í úrslitaleik í Jóhannesarborg 1-0. Eina markið kom þegar um fimm mínútur voru eftir af framlengingu.

Það var Andrés Iniesta, leikmaður Barcelona, sem var hetja Spánverja á 116. mínútu þegar hann skoraði eftir sendingu frá Cesc Fabregas.

Fyrri hálfleikurinn var ekki mikil skemmtun. Hann einkenndist af miklu skipulagi og Hollendingar voru verulega grimmir á miðsvæðinu. Leikurinn opnaðist talsvert í seinni hálfleiknum en leikmenn náðu ekki að finna leiðina í netið.

Það er með hreinum ólíkindum að ekkert mark var skorað í venjulegum leiktíma. Bæði lið fengu algjör dauðafæri til að skora en þau nýttust ekki. Arjen Robben slapp tvívegis einn í gegn og það gerði Cesc Fabregas einnig.

Þá fengu þeir Joris Mathijsen og Carles Puyol einnig upplögð skallafæri en hittu ekki á markið. Það þurfti því að framlengja leikinn og snemma í framlengingu gerðu Spánverjar tilkall til vítaspyrnu en Howard Webb dómari var ekki á því að benda á punktinn.

Á 109. mínútu fékk John Heitinga svo að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt. Hollendingar luku því leiknum tíu talsins. Spánverjar náðu að nýta sér liðsmuninn og tryggðu sér sigurinn nokkrum mínútum fyrir lok framlengingar.

Þeir fögnuðu innilega þegar Howard Webb flautaði af en 85 þúsund áhorfendur fylgdust með leiknum á Soccer City vellinum í Jóhannesarborg. Spánn er einnig handhafi Evrópumeistaratitilsins og var að vinna heimsmeistaramótið í fyrsta sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×