Enski boltinn

David James: Ég var fullur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David James.
David James. Mynd/Nordic Photos/Getty
David James hefur viðurkennt það að hafa verið fullur og nýkominn úr steggjapartíinu sínu þegar hann heyrði fyrst af því að Bristol City vildi frá hann til sín. James gerði ekki nýjan samning við Portsmouth í sumar en samdi þess í stað við Bristol-liðið sem er í b-deildinni eins og Portsmouth.

„Ég hélt í fyrstu að ég myndi vera áfram hjá Portsmouth, fara í úrvalsdeildarlið eða fara til Skotlands," sagði

hinn fertugi David James við Daily Star en Celtic hafði mikinn áhuga á að fá hann til sín.

„Þetta fór í gegnum huga minn milli þess að ég þurfti að skipuleggja brúðkaupið mitt og Amöndu. Þetta kom síðan allt saman morguninn eftir steggjapartíið mitt," sagði James.

„Ég fékk símtal úr óþekktu númeri sem ég er ekki vanur að svara en var ennþá fullur og svaraði í símann. Það kom mér mikið á óvart að á hinni línunni var Steve Coppell. Hann sagði: Ég er stjóri Bristol City og ég ætlaði að athuga það hvort þú værir til í að skoða aðstæður hjá okkar félagi," rifjar David James upp.

„Ef að það hefði verið einhver annar á línunni þá hefði ég ekki einu sinni hugsað út í það að fara þangað. En það var virðing mín fyrir Steve sem gerði það að verkum að ég hafði áhuga á að fara til Bristol City," segir David James.

David James valdi það síðan að semja við Bristol City og ein af stærstu ástæðunum fyrir því var að hann vildi ekki rífa upp fjölskyldu sína og flytja á nýjan stað. Það eru "bara" 129 kílómetrar á milli Bristol og Portsmouth.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×