Enski boltinn

Benitez svarar gagnrýni

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Rafa Benitez, stjóri Liverpool, er heldur betur ósáttur við þá gagnrýni sem hann hefur fengið varðandi meðhöndlun sína á Fernando Torres. Benitez fékk að heyra það er hann tók Torres af velli gegn Birmingham um daginn.

Þá var staðan 1-1 og ekkert meira var skorað í leiknum. Liverpool missti því af dýrmætum stigum.

„Ég hef þurft að hlusta á alls konar hluti. Fólk hefur ekki hugmynd um hvað það er að segja er það segist ekki skilja skiptinguna eða þá staðreynd að hann hafi verið þreyttur," sagði Benitez pirraður.

„Sumir segja að það geti ekki verið að hann sé þreyttur því hann hafi ekki spilað marga leik. Það skiptir ekki máli. Við spiluðum í 60 mínuútur með 10 leikmenn gegn góðu Benfica-liði. Við urðum að vinna mjög mikið í þeim leik.

„Þeir Mascherano, Agger og Torres voru allir mjög þreyttir og við verðum að stýra álaginu á þá. Við byrjuðum gegn Birmingham með Torres en þegar við sáum að hann var ekki ógnandi lengur settum við ferska fætur inn á völlinn. David Ngog gerði gæfumuninn í þeim leik, við fengum sex færi á 30 mínútum," sagði Spánverjinn og bætti við.

„Það má vel tala um Torres en Ngog bjó til færi. Við vorum ekki að fá þau færi er Torres var inn á vellinum. Við sem vinnum með þessum leikmönnum höfum meiri skilning á þessum hlutum en þið."

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×