Íslenski boltinn

Arnar: Erfitt að vita ekki hver verður þjálfari Vals á morgun

Elvar Geir Magnússon skrifar
Arnar í leik Vals og KR í sumar.
Arnar í leik Vals og KR í sumar. Fréttablaðið/Valli
Valsmenn gerðu góða ferð á Selfoss í gær og náðu í þrjú verðskulduð stig. Í fyrri hálfleik fóru þeir hreinlega á kostum og refsuðu varnarmönnum Selfyssinga fyrir að sofa á verðinum með því að skora tvívegis.

Selfyssingar náðu að minnka muninn úr vítaspyrnu en Valsmenn voru ekki lengi að svara eftir slæm markmannsmistök. Aftur minnkuðu heimamenn muninn og hleyptu spennu í lokamínúturnar. Með smá heppni hefðu þeir getað nælt sér í stig en sigur Valsmanna var sanngjarn enda stjórnuðu þeir ferðinni langstærstan hluta leiksins.

„Eigum við ekki að segja að við höfum bara ákveðið að gefa áhorfendum smá spennu," sagði Arnar Sveinn Geirsson, leikmaður Vals, glettinn eftir leik.

„Mér fannst það mjög klaufalegt hjá okkur að hleypa þeim inn í leikinn með því að gefa þeim mark en við fengum þrjú stig og þá er mér alveg sama."

Mikil neikvæð umræða hefur verið kringum Valsliðið að undanförnu. „Eftir það sem á undan hafði gengið var gríðarlega mikilvægt fyrir alla hjá Val að vinna, bæði fyrir Gulla (Gunnlaug Jónsson), okkur og félagið í heild. Það er gott að fara í tveggja vikna frí með sigur á bakinu," sagði Arnar.

„Við sýndum það ágætlega úti á vellinum að við stöndum allir saman. Það var sama hvað gekk á. Við fengum tvisvar á okkur mark og svo mikla pressu. Við stóðumst hana og það bara sýnir karakterinn í þessu liði að það var enginn að fara að gefast upp."

Arnar Sveinn segir að það sé nóg eftir af mótinu til að gera ágætis hluti. „Það hefur mikil óvissa verið í gangi og erfitt að láta það ekki hafa áhrif á sig. Það er erfitt að sitja inni í klefa og vita ekki hver verður þjálfarinn manns á morgun. En það er sem betur fer allt komið á hreint núna og við erum hrikalega ánægðir með það. Við erum ánægðir með Gulla og ætlum að klára tímabilið með stæl," sagði Arnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×