Tíska og hönnun

House-leikkona hrifin af kjól frá tískumerkinu Emami

Jennifer Morrison var brúðarmær Anítu Briem en þær klæddust allar Emami-kjólum.
Jennifer Morrison var brúðarmær Anítu Briem en þær klæddust allar Emami-kjólum.

Leikkonan Jennifer Morrison, sem þekktust er fyrir hlutverk sitt sem læknirinn Allison Cameron í sjónvarpsþáttunum House, var brúðarmær í brúðkaupi Anítu Briem. Brúðarmeyjar Anítu klæddust sérsaumuðum silkikjólum frá tískumerkinu Emami og að sögn Brynjars Ingólfssonar, framkvæmdastjóra Emami, var Morrison afskaplega hrifin af hönnun fyrirtækisins.

Morrison hefur leikið í myndum á borð við Intersection, Stir of Echoes, Urban Legends: Final Cut og Mr. & Mrs. Smith. Hún hefur einnig farið með hlutverk í sjónvarpsþáttunum Touched by an Angel og Dawson's Creek en hefur leikið í sjónvarpsþáttunum House allt frá árinu 2004. Að sögn Brynjars var Morrison forvitin um hver hannaði brúðarmeyjarkjólana og lýsti yfir áhuga sínum á að eignast slíkan kjól sjálf.

Brynjar hjá Emami.

„Ég heyrði þetta frá einum brúðkaupsgesti sem sagði að Morrison hefði verið að spyrjast fyrir um kjólinn. Við höfum boðist til að gefa henni kjól, enda væri það góð auglýsing fyrir okkur ef hún sæist í kjól frá Emami." Ný lína er væntanleg frá Emami nú í vetur og einkennist sú lína af fallegum litum og mynstri.

Fleiri frægar stjörnur hafa heillast af íslenskri hönnun og má þar nefna söngkonuna Beyoncé sem keypti leggings frá E-label og hótelerfingjann Paris Hilton og söngkonuna Kylie Minougue sem hafa báðar klæðst skóm frá Gyðja Collection auk söngkonunnar Gwen Stefani sem sást klæðast flík frá Andersen & Lauth. - sm


Tengdar fréttir

Brúðarmeyjar í íslenskum kjól

Tískufyrirtækið Emami hefur boðið leikkonunni Anítu Briem að hanna kjóla frítt á sex brúðarmeyjar hennar þegar hún gengur í það heilaga með unnusta sínum Dean Paraskevopoulos á grísku eyjunni Santorini í sumar. Aníta hefur þekkst boðið.

Aníta Briem giftir sig í dag

„Við erum bara á leiðinni á æfingu í kirkjuna núna og allt gengur svakalega vel," segir Erna Þórarinsdóttir söngkona en dóttir hennar, Hollywood-leikkonan Aníta Briem, gengur í það heilaga með unnusta sínum Dean Paraskevopoulus í dag. Athöfnin fer fram á grísku eyjunni Santorini en eyjan er einmitt fræg fyrir að vera sögusvið söngvamyndarinnar Mamma Mia.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×