Enski boltinn

Nani: Ég er einn sá besti í heimi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nani fagnar marki sínu á laugardaginn.
Nani fagnar marki sínu á laugardaginn. Nordic Photos / Getty Images

Portúgalinn Nani er ánægður með eigin frammistöðu á tímabilinu og segist vera orðinn einn besti leikmaður heims.

Nani skoraði umdeilt mark þegar að Manchester United vann 2-0 sigur á Tottenham um helgina, eins og sjá má hér. Nani rúllaði boltanum í autt netið þegar að Heurelho Gomes, markvörður Tottenham, var búinn að stilla boltanum upp til að taka aukaspyrnu. Engin aukaspyrna hafði þá verið dæmd, hins vegar.

Þetta var sjöunda mark Nani á tímabilinu og hans fjórða í jafn mörgum leikjum.

„Ég held að ég sé orðinn eins hæfur á alla kanta og ég get orðið," sagði Nani eftir leikinn. „Ég get nú sagt að ég sé orðinn einn besti leikmaður heims."

„Ég spila með besta félagi heims og hlutverk mitt er að hafa úrslitaáhrif á leikinn - skora mörk og leggja þau upp."

„Maður verður að hafa góða sjálfstrú og trú á því sem maður er að gera inn á vellinum. Stórir leikir eru fyrir stóra leikmenn."

„Ég vil vera einn sá besti. Ég óttast ekki að spila í stórum leikjum en þeir eru þeir fallegustu í boltanum - maður spilar á mjög háu getustigi."

„Öllum líkar við fallegan fótbolta. Það hjálpar mér líka að bæta minn leik."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×