Enski boltinn

Ganamaðurinn Gyan segist vera tilbúinn í enska boltann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Asamoah Gyan sló í gegn á HM í Suður-Afríku í sumar.
Asamoah Gyan sló í gegn á HM í Suður-Afríku í sumar. Mynd/AP
Asamoah Gyan, stjarna Gana á HM í Suður-Afríku og nýr leikmaður Sunderland í ensku úrvalsdeildinni, hefur ekki áhyggjur af pressunni sem fylgir því að vera keyptur fyrir þrettán milljónir punda.

„Það er búinn að vera draumur minn að koma til Englands og þetta er ein af stærstu stundunum á mínum ferli," sagði Asamoah Gyan í viðtali við BBC.

„Ég get pottþétt ráðið við þessa pressu. Sunderland er ekki eins og Chelsea sem getur keypt marga leikmenn fyrir fimmtán milljón pund. Það gefur mér mikið sjálfstraust að vita að þeir höfðu það mikla trú á mér að þeir voru tilbúnir að borga svona mikið fyrir mig," sagði Asamoah Gyan sem kom frá franska liðinu Stade Rennes rétt áður en félagsskiptaglugganum lokaði.

„Fólk mun ætlast til þess ég skori fullt af mörkum og geri ótrúlega hluti. Ég mun drekka í mig pressuna, ætla bara að halda einbeitingunni og sinna minni vinnu. Það er bara eðlilegt að fá einhverja gagnrýni á sig en ég er liðsmaður sem legg aðaláhersluna á það að hjálpa mínu liði að vinna leiki," sagði Gyan sem er spenntur fyrir samstarfinu við Darren Bent en hann telur að þeir passi mjög vel saman.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×