Enski boltinn

Mikel Arteta kemur ekki í staðinn fyrir Fábregas hjá Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikel Arteta og Cesc Fábregas.
Mikel Arteta og Cesc Fábregas. Mynd/AFP
Umboðsmaður Mikel Arteta segir leikmanninn sinn ekki vera á leiðinni til Arsenal eins og skrifað er um í enskum miðlum í dag. Arsenal er farið að leita að eftirmanni Cesc Fábregas sem er að öllum líkindum á leiðinni til spænska liðsins Barcelona.

Það hefur verið skrifað um það í enskum miðlum í morgun að Arsene Wenger, stjóri Arsenal, telji Mikel Arteta vera rétta manninn til þess að koma í staðinn fyrir Fábregas. Þessi 28 ára miðjumaður á eftir tvö ár á samningi sínum hjá Everton og hefur einnig verið orðaður við Manchester United.

„Dagblöðin segja svo margt. Hann á konu og barn og er mjög ánægður í Liverpool-borg," sagði Inaki Ibanez, umboðsmaður Mikel Arteta við AP.

David Moyes, stjóri Everton, vill örugglega drífa í því að gera nýjan samning við Mikel Arteta en hann var að klára nýjan fjögurra ára samning við Tim Cahill og það eru síðan viðræður í gangi við þá Steven Pienaar (leikmaður ársins hjá Everton) og Jack Rodwell (ungi leikmaður ársins hjá Everton).

Arteta byrjaði að spila aftur í janúar eftir að hafa verið frá í næstum því heilt ár vegna hnémeiðsla. Hann kom til Everton frá Real Sociedad árið 2005.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×