Íslenski boltinn

Gummi Ben: Við þurfum að gera betur og munum gera það

Elvar Geir Magnússon skrifar

Guðmundi Benediktssyni, þjálfara Selfyssinga, fannst sínir menn gefa ódýr mörk í tapleiknum gegn Val í kvöld. Valsmenn unnu 2-1 sigur eftir að Selfoss hafði skorað fyrsta markið.

„Við getum sjálfum okkur um kennt. Við sofnuðum á verðinum og gáfum þeim þessi mörk að mínu mati. Það er ekki hægt í þessari deild að gefa mörk. Það þarf að dekka mennina sína og koma boltanum í burtu þegar það á við," sagði Guðmundur.

Selfoss tók forystuna strax í upphafi seinni hálfleiks en Valsmenn svöruðu strax á meðan Selfyssingarnir í stúkunni voru enn að fagna.

„Okkar maður misreiknar boltann. Mistökin gerast í þessu og lítið við því að segja. Ég held að ég eigi ekki eftir að lifa það að sjá leik án mistaka en því miður voru þessi dýrkeypt. Þeir jöfnuðu metin."

Leikmaður Selfyssinga seldi sig ódýrt í aðdraganda sigurmarksins. „Við áttum að gera betur en við gerðum í kvöld. Í sigurmarkinu seljum við okkur á vondum stað og svo er ekki dekkning í teignum. Við þurfum að gera betur og við munum gera það."

Eftir sjö leiki hefur Selfoss sjö stig og ljóst að liðið þarf að fara að safna stigum. „Við vitum allt um það og við munum gera það. Þó stigin hafi ekki komið í dag þá kemur leikur eftir þennan," sagði Guðmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×