Enski boltinn

Mancini ákærður en Moyes sleppur

Elvar Geir Magnússon skrifar
Mancini og Moyes.
Mancini og Moyes.

Roberto Mancini, stjóri Manchester City, hefur verið ákærður af enska knattspyrnusambandinu. Hegðun Mancini þótti ekki til fyrirmyndar þegar City lék gegn Everton á dögunum.

David Moyes, stjóri Everton, sleppur með aðvörun frá sambandinu.

Mancini lenti saman við Moyes og fengu þeir báðir brottvísun frá dómaranum. Mancini átti upptökin, geystist að Moyes til að taka af honum boltann. Þau viðskipti enduðu með miklu rifrildi þeirra á milli.

Öryggisverðir og fjórði dómarinn, Howard Webb, skárust þá í leikinn. Stjórarnir tveir tókust í hendur eftir þetta þegar þeim var tjáð að þeir þyrftu að deila lyftu upp í áhorfendastúku til að horfa á það sem eftir var af leiknum.

„Ég er búinn að tala við David og ef ég gerði mistök bið ég hann og dómarann afsökunar," sagði Mancini. „Ég vildi bara fá boltann því það var nóg eftir af leiknum. Ég var pirraður."

Moyes hafði áður látið Mancini heyra það fyrir að veifa ímynduðu spjaldi eftir brot frá Steven Pienaar. „Svona gerist stundum í hita leiksins. Þetta gerist ekki aftur," sagði Mancini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×