Enski boltinn

Meðalaldur áhorfenda á Old Trafford er 47 ár

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Wayne Rooney leikmaður Manchester United á Old Trafford, heimavelli félagsins.
Wayne Rooney leikmaður Manchester United á Old Trafford, heimavelli félagsins. Nordic Photos/Getty Images
Ensk úrvalsdeildarfélög gætu þurft að lækka miðaverð á heimaleik sína umtalsvert á næstu árum en ungir Englendingar velja frekar þann kost að horfa á beinar útsendingar á krám - í stað þess að mæta á leiki.

Meðalaldur áhorfenda á heimaleiki enskra úrvalsdeildarliða fer hækkandi og sem dæmi má nefna að meðalaldurinn á heimaleikjum Manchester United á Old Trafford er 47 ár. Þetta er ekki innsláttarvilla, fjörtíu og sjö ár.

Englendingurinn Stuart Dykes sem hefur frá barnæsku haldið með Manchester United segir í viðtali vð norska dagblaðið Aftenposten að ensk félagslið geti lært margt af liðum í efstu deild í Þýskalandi. Dykes starfar nú hjá þýska félaginu Schalke sem þýðandi og túlkur. Hann segir að áhugi Englendinga á Þýskalandi fari vaxandi. Það er oft á tíðum ódýrara að fljúga til Þýskaland og fara á leik - miðað við England.

Dykes nefnir sem dæmi að miðaverð á heimaleiki Arsenal gegn þekktustu liðum ensku úrvalsdeildarinnar. Dýrustu miðarnir kosta um 17.000 kr., og þeir ódýrustu kosta um 9.000 kr. Að meðaltali er miðaverð á leik í efstu deild í Þýskalandi um 3.000 kr.

Ungir stuðningsmenn Schalke fagna á heimavelli félagsins þar sem að boðið er upp á stæði og ódýra miða sem ungt fólk nýtir sér.Nordic Photos/Getty Images
„Fjölskyldur hafa ekki efni á því að fara saman á leik í ensku úrvalsdeildinni. Það er erfitt að fá ársmiða á góðu verði og ensku liðin bjóða ekki upp á sérstök fjölskyldusvæði á lægra verði líkt og í Þýskalandi," segir Dykes en hann bendir einnig á þá staðreynd að mörg ensk úrvalsdeildarlið séu nú í eigu erlendra aðila sem hafi á margan hátt rofið á tengsl stuðningsmanna við félagið. „Hjá Schalke eru stuðningsmenn liðsins jafnframt félagsmenn og það eru 90.000 skráðir í félagið. Á Englandi eru stuðningsmannaklúbbar sem eru nánast í engum tengslum við félagið sjálft."

Dykes telur að vert sé að skoða þann möguleika að bjóða upp á stúkumiða í stæði á Englandi. Eftir Hillsborough slysið þann 15. apríl árið 1989 var tekin sú ákvörðun að aðeins mætti sitja á leikjum í ensku úrvalsdeildinni. „Það er hægt að koma upp slíkum svæðum á þeim völlum sem eru til staðar á Englandi. Það er vel hægt að tryggja öryggi áhorfenda - líkt og gert er í Þýskalandi. Þar með væri hægt að lækka miðaverð og ungt fólk færi að mæta á völlinn á ný," bætti Dykes við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×