Fótbolti

Thuram vill láta refsa Evra og Ribery

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Thuram er hér í leik með Barcelona.
Thuram er hér í leik með Barcelona.

Lilian Thuram, fyrrum leikmaður franska landsliðsins, er allt annað en sáttur við hegðun leikmanna landsliðsins á HM í Suður-Afríku. Það þarf ekkert að fjölyrða um sirkusinn sem var í kringum franska landsliðið á mótinu.

Thuram segir leikmennina hafa skaðað ímynd landsliðsins og vill að mönnum verði refsað. Horfir hann þá sérstaklega til fyrirliðans Patrice Evra og Franck Ribery.

"Þegar maður er fyrirliði ber maður vissa ábyrgð. Anelka fékk tækifæri til þess að biðjast afsökunar en hann hafði ekki áhuga á því. Evra vissi það en ákvað samt að standa á bak við verkfall leikmanna. Sú aðgerð breytti ímynd Frakklands út um allan heim og það gæti haft afleiðingar fyrir franskt samfélag," sagði Thuram reiður.

"Fyrir mér er þetta sérstaklega alvarlegt þar sem atvikið hefur leitt til þess að umræða um rasisma í samfélaginu er komin á nýtt stig. Nú er talað um að ástæða fyrir þessu sé sú að of margir svertingar séu í liðinu. Fyrir mér er þessi hegðun ófyrirgefanleg og það verður að refsa mönnum og þá sérstaklega Evra og Ribery."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×