Innlent

Borgin ver 100 milljónum í markaðsátak fyrir ferðaþjónustuna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Borgarráð ákvað að leggja 100 milljónir króna í markaðsátakið. Mynd/ GVA.
Borgarráð ákvað að leggja 100 milljónir króna í markaðsátakið. Mynd/ GVA.
Borgarráð ákvað einróma á fundi sínum í morgun að verja 100 milljónum króna til sameiginlegs markaðsátaks í ferðaþjónustu með helstu hagsmunaaðilum í greininni vegna gossins í Eyjafjallajökli. Er þetta gert í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu, sem komin er upp hjá íslenskri ferðaþjónustu og hjá fjölmörgum fyrirtækjum í Reykjavík sem treysta á viðskipti erlendra ferðamanna.

„Reykjavíkurborg brást hratt við og hafa Menningar- og ferðamálasvið Reykjavíkurborgar og Höfuðborgarstofa unnið náið með rekstraraðilum í ferðaþjónustunni. Með sameiginlegu markaðsátaki næst vonandi að sporna við fyrirséðum samdrætti þannig að tjónið á núverandi ferðatímabili verði lágmarkað," segir Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri.

Í fréttatilkynningu frá Reykjavikurborg segir að vegna öskufalls frá gosinu í Eyjafjallajökli og mikilla hindrana í flugsamgöngum sé komin upp afar alvarleg staða í íslenskri ferðaþjónustu. Miklar afbókanir hafa verið á flugsætum, gistingu, bílaleigubílum og annarri ferðaþjónustu. Nýting á hótelum í Reykjavík sé um þessar mundir allt niður í helming þess sem var á sama tíma í fyrra og ráðstefnur og komur skipulagðra hópa hafa fallið niður eða verið afbókaðar samkvæmt upplýsingum frá Samtökum ferðaþjónustunnar.

Ríkisstjórnin hefur þegar ákveðið að verja 350 milljónum króna í markaðsátak fyrir ferðaþjónustuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×