Enski boltinn

McGregor orðaður við United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Allan McGregor.
Allan McGregor. Nordic Photos / Getty Images

Skoski markvörðurinn Allan McGregor hefur bæst í hóp markvarða sem hafa verið orðaðir við Manchester United.

McGregor er á mála hjá Glasgow Rangers og sagður falur fyrir fimm milljónir punda. Hann er samningsbundinn Rangers til loka tímabilsins 2013.

Hann er 28 ára gamall og hefur þótt standa sig afar vel bæði með félagi sínu og skoska landsliðinu. Hann átti stórleik þegar að Skotar töpuðu naumlega fyrir heims- og Evrópumeisturum Spánar á þriðjudagskvöldið, 3-2.

Martin Ferguson, njósnari hjá United og bróðir Alex, knattspyrnustjóra, var á meðal áhorfenda í leiknum. Aðrir markverðir sem hafa verið orðaðir við United eru Maarten Stekelenburg, David de Gea og Manuel Neuer. Þeir eru allir hins vegar sagðir mun dýrari en McGregor.

Núverandi aðalmarkvörður United, Edwin van der Sar, verður fertugur síðar í mánuðinum.

„Þegar maður sér að félög eins og Arsenal eiga í vandræðum með markverði finnst mér ótrúlegt að enginn hafi reynt að kaupa hann," sagði Steven Naismith, félagi McGregor hjá Rangers, við breska fjölmiðla.

„En ég er alls ekki að kvarta. Því lengur sem Allan verður hjá Rangers því betra."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×