Enski boltinn

Obi Mikel: Man Utd er helsti keppinautur okkar

Elvar Geir Magnússon skrifar
John Obi Mikel.
John Obi Mikel.

Nígeríumaðurinn John Obi Mikel hjá Chelsea telur að Manchester United verði helsti keppinautur liðsins um Englandsmeistaratitilinn á komandi tímabili. Þessi tvö lið mætast í dag í leiknum um Samfélagsskjöldinn.

„Þeir hafa sterkt lið og maður getur aldrei afskrifað þá. Fólk talar mikið um Manchester City en ég tel að United verði alltaf í baráttunni og verði okkur alltaf ógn," sagði Obi Mikel sem hefur afrekað það að vera kynntur sem leikmaður Manchester United og ganga svo liðs við Chelsea einhverjum klukkustundum síðar.

„Ég lít á leikinn um Samfélagsskjöldinn sem mikilvægan leik en ég tel að hann muni þó ekki segja neitt um hvernig úrvalsdeildin verður. Við viljum samt vinna og byrja tímabilið vel. Ef við vinnum getum við vonandi haldið svo áfram á sömu braut."

„Ég er að hefja mitt fimmta tímabil núna, á hverju ári líður mér betur og vonandi verður þetta tímabil frábært fyrir mig og fyrir liðið," segir Obi Mikel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×