Íslenski boltinn

Heimir: Við höfum oft sýnt karakter

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH. Mynd/Vilhelm
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, var að vonum sáttur að vera kominn aftur á sigurbraut eftir sigur á botnliði Grindvíkinga á Kaplakrika, 2-1.

„Mér fannst við á köflum spila ágætis leik," sagði Heimir. „Við vissum það að þetta yrði erfiður leikur enda Grindavík að skipta um þjálfara og oft sem lið virðast fá auka innspýtingu þegar nýr maður tekur við. Mér fannst við þó sterkari aðilinn og við unnum sanngjarnt."

Leikmenn FH beittu hárri pressu í byrjun og var það því nokkuð gegn gangi leiksins þegar fyrsta mark leiksins kom en það var upp úr góðri skyndisókn hjá Grindvíkingum.

„Við FH-ingar höfum oft sýnt karakter og við höfum áður komið til baka eftir að hafa lent undir. Við vorum að gefa boltann frá okkur á slæmum stöðum í upphafi og hleypa þeim í hraðar sóknir. Mér fannst þetta þó lagast í seinni hálfleik og þegar við náðum að láta boltann ganga þá fannst mér þetta ganga vel."

Bjarki Gunnlaugsson kom inn í byrjunarliðið í fyrsta leik sínum á tímabilið og spilaði hann sjötíu mínútur. „Ég var mjög ánægður með Bjarka. Hann var mjög góður á boltanum, skapaði ró og kom spilinu í gang. Við vissum það fyrir leikinn að hann myndi spila í kringum sextíu mínútur og hann gerði það mjög vel."

Ólafur Páll Snorrason var ekki í hóp, en hann er lítillega meiddur. „Hann meiddist á æfingu á laugardaginn, ég vona að hann verði tilbúinn í leikinn við Blika á laugardaginn," sagði Heimir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×