Erlent

Sviss vill ekki lenda í sporum Íslendinga

Aðgerðasinni í hópi hluthafa Credit Suisse uppáklæddur sem jólasveinninn birtist á skjá að baki æðstu stjórnendum bankans í mótmælum gegn ofurbónusum á aðalfundi bankans 30. apríl síðastliðinn. Fréttablaðið/AP
Aðgerðasinni í hópi hluthafa Credit Suisse uppáklæddur sem jólasveinninn birtist á skjá að baki æðstu stjórnendum bankans í mótmælum gegn ofurbónusum á aðalfundi bankans 30. apríl síðastliðinn. Fréttablaðið/AP

Stjórnvöld í Sviss hafa gert tveimur stærstu bönkum landsins að draga úr áhættu og auka eiginfjárgrunn sinn. Bankarnir eru UBS AG og Credit Suisse Group AG.

Bloomberg greinir frá því að með þessu hafi landið brugðist við á undan eftirlitsstofnunum fjármálakerfa í Evrópulöndum og Bandaríkjunum. Aðgerðir Svisslendinga eru sagðar drifnar áfram af óttanum við að lenda í sömu sporum og Ísland. Þótt löndin séu í grunninn ólík áttu þau þó eitt sameiginlegt, risastór bankakerfi í samanburði við efnahag landanna.

„Á eftir Íslandi á Sviss við mestan vanda að etja vegna banka sem orðnir eru of stórir til að þeir megi fara á hausinn,“ hefur Bloomberg eftir Urs Birchler, prófessor við stofnun Zürich-háskóla sem sérhæfir sig í bankamálum. Hann er jafnframt fyrrum ráðgjafi seðlabanka í fjármálastöðugleika. „Mögulega gæti vandinn sett Sviss út af sporinu, bæði í efnahagslegu og lýðræðislegu tilliti.“

Hvor um sig eiga UBS og Credit Suisse eignir yfir einni billjón svissneskra franka (900 milljarðar dala, eða 114,3 billjónir króna), tvöfalda stærð svissneska hagkerfisins. Reglurnar sem fjármálaeftirlit Sviss hefur sett bönkunum um eigið fé og handbært fé eru meðal annars hluti þeirra sem enn eru til umræðu í Basel-nefndinni um fjármálaeftirlit.

Þá veltir umræðuhópur á vegum ríkisstjórnar Sviss fyrir sér leiðum til að skipta upp bönkunum, komi til þess að þeir lendi í þrengingum sem leitt gætu til svipaðrar stöðu og kom upp hér á landi.

„UBS og Credit Suisse verða að búa til áætlanir um að skilja á milli starfsemi sem er þjóðhagslega nauðsynleg og annarrar sem verður látin rúlla komi til áfalls,“ segir í frétt Bloomberg.

Sviss hljóp undir bagga með UBS í vandræðum bankans árið 2008 og fjárfesti í honum fyrir sex milljarða franka (tæplega 700 milljarða króna). Innan við ári síðar seldi ríkið svo hlut sinn með 1,2 milljarða franka (139 milljarðar króna) hagnaði.

Næst lætur ríkið banka í vandræðum fara á hausinn, er haft eftir Thomas Jordan, varaformanni Seðlabanka Sviss, en hann á jafnframt sæti í umræðuhópnum sem svissnesk stjórnvöld hafa falið að fjalla um bankakerfið þar.

olikr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×