Enski boltinn

Joe Hart bjargaði stigi fyrir City - markalaust í fyrsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joe Hart átti stórleik á White Hart Lane í dag.
Joe Hart átti stórleik á White Hart Lane í dag. Mynd/Getty Images
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, skellti Joe Hart í markið fyrir leikinn á móti Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í dag. Hann sá ekki eftir því þar sem enski landsliðsmarkvörðurinn bjargaði stigi fyrir sína menn í markalausu jafntefli Tottenham og Manchester City í opnunarleik tímabilsins.

Það var ótrúlegt að Tottenham skildi ekki ná að skora í fyrri hálfleiknum þar sem liðið hafði algjöra yfirburði og skapaði sér hvert dauðafærið á fætur öðru. Joe Hart átti algjöran stórleik í hálfleiknum og bjargaði hvað eftir annað með glæsilegum markvörslum.

Manchester City sýndi aðeins betri leik í seinni hálfleiknum en náði þó ekki að skapa sér mikið af færum. Tottenham byrjaði seinni hálfleikinn ekki vel en óx ásmeginn og reyndi nokkrum sinnum til viðbótar á Hart á síðustu tuttugu mínútunum.

Fyrstu 38 mínútur leiksins voru stanslaus skemmtun og því fór enska úrvalsdeildin vel af stað þrátt fyrir markaleysið. Stóra frétt leiksins er þó sú að það vantar greinilega ennþá talsvert upp á að Mancini nái að fínpússa leik sinna manna hjá City. Tottenham var mun betra liðið og City-menn gátu þakkað fyrir stigið í leikslok.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×