Fótbolti

Þjóðverjar tryggðu sér bronsið í Suður-Afríku

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Þjóðverjar fagna sigurmarkinu frá Khedira.
Þjóðverjar fagna sigurmarkinu frá Khedira. GettyImages
Þjóðverjar eru fyrsta þjóðin til að tryggja sér bronsverðlaun tvö heimsmeistaramót í röð. Þjóðverjar lögðu Úrúgvæ í leiknum sem var að ljúka, 3-2. Leikurinn var frábær skemmtun frá upphafi til enda. Arne Friedrich átti fyrsta færið þegar hann skallaði slánna eftir horn á upphafsmínútunum. Diego Forlán skaut svo framhjá úr aukaspyrnu áður en Þjóðverjar komust yfir. Þetta er í fjórða sæti sem Þjóðverjar vinna bronsið á HM. Þeir voru betri heilt yfir fyrsta hálftímann og Thomas Muller skoraði þegar hann tók frákast eftir skot frá Bastian Schweinsteiger. Markið var hans fimmta í keppninni og þar sem hann hefur sent þrjár stoðsendingar er hann nú skráður sem markahæsti leikmaður mótsins. En Úrúgvæ sótti í sig veðrið og uppskar jöfnunarmark skömmu síðar. Þá missti Schweinsteiger boltann á miðjunni, hann barst fram á Cavani sem kláraði færið vel og jafnaði í 1-1. Luis Suarez, sem baulað var á allan leikinn vegna hendinnar gegn Gana, fékk svo dauðafæri rétt fyrir hálfleikinn en hann skaut framhjá. Staðan 1-1 í hálfleik. Úrúgvæ komst svo yfir í upphafi seinni hálfleiks. Diego Forlán skoraði þá fráværtmark með viðstöðulausu skoti efst í markhornið og Úrúgvæjar komnir yfir. En aðeins fjórum mínútum síðar jafnaði Marcell Jansen með skalla eftir magnaða sendingu frá Jerome Boateng. Þjóðverjar voru betri eftir það og uppskáru mark átta mínútum fyrir leikslok. Sami Khedira skoraði þá með skalla eftir hornspyrnu eftir að Úrúgvæ mistókst að bægja hættunni frá. Leikurinn fjaraði út og Þjóðverjar voru nær því að skora en Úrúgvæ að jafna. Úrúgvæ fékk þó aukaspyrnu í uppbótartíma, rétt fyrir utan vítateig Þjóðverja. Forlán tók hana en spyrna hans fór í þverslánna og yfir. Þjóðverjar eru því handhafar bronsverðlaunanna á HM í Suður-Afríku árið 2010.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×