Enski boltinn

Benayoun söng “You’ll Never Walk Alone” í Chelsea-busuninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Yossi Benayoun í leik með Chelsea á móti Frankfurt.
Yossi Benayoun í leik með Chelsea á móti Frankfurt. Mynd/Getty Images
Ísraelski knattspyrnumaðurinn Yossi Benayoun er húmoristi mikill og félagar hans í Chelsea-liðinu fengu að kynnast gamansemi kappans þegar Benayoun var busaður í Þýskalandi um síðustu helgi.

Allir nýir leikmenn Chelsaea eru látnir standa upp á borði fyrir framan alla leikmenn og þjálfara Chelsea og eiga þar að syngja lag eins hátt og þeir geta.

Benayoun kom öllum á óvart á þessarri vandræðalegu stundu þegar hann byrjaði að syngja „You'll Never Walk Alone" með Gerry and the Pacemakers sem er þekktasti söngur stuðningsmanna Liverpool.

„Ég byrjaði að syngja „You'll Never Walk Alone" en allir leikmennirnir byrjuðu þá að öskra á mig. Þeir vildu ekki leyfa mér að halda áfram þannig að ég þurfti að syngja eitthvað annað lag," sagði Benayoun en Chelsea keypti hann frá Liverpool í sumar fyrir 5,5 milljónir punda.

Yossi Benayoun lék með Liverpool frá 2007 til 2010 og þar áður var hann í tvö ár hjá West Ham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×