Íslenski boltinn

Tryggvi: Vonandi fyrsta stigið af mörgum

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Tryggvi í teignum í kvöld. Mynd/Anton
Tryggvi í teignum í kvöld. Mynd/Anton

„Við vorum líklegri til að hirða öll þrjú stigin í lokin. Þetta var mikill baráttuleikur hjá okkur og þurftum að hlaupa mikið eftir að við urðum manni færri. Þetta var flott stig hjá okkur og vonandi það fyrsta af mörgum í sumar,“ sagði Tryggvi Guðmundsson, Eyjapeyi, eftir 1-1 jafntefli við Val að Hlíðarenda í kvöld.

Eyjamenn börðust af hörku, sérstaklega eftir að Yngvi Magnús Borgþórsson fékk að líta rauða spjaldið á 22. mínútu, og uppskáru gott stig. Eyjamenn hafast nú við á höfuðborgarsvæðinu vegna öskufalls í Vestmannaeyjum og Tryggvi segir að nú verði slegið upp í æfingarferð.

„Þessi leikur tók mikið á kraftana og það verður gott að slaka aðeins á með að skella sér í Bláa Lónið. Við ætlum að nýta okkur þessa stöðu sem einskonar æfingarferð og við höfum verið svo heppnir að fá að æfa hjá liðum hér í Reykjavík og á Suðurnesjum. Við eigum þrjá erfiða útleiki fyrir höndum og því gott að geta æft vel saman.“

Tryggvi á enn eftir að opna markareikninginn á ný fyrir Eyjamenn en hann var afar farsæll fyrir framan mark andstæðinganna þegar hann lék með ÍBV á árum áður. Tryggvi segir að mörkin séu á leiðinni.

„Ég á enn eftir að fá færi til að skora. Það riðlaði auðvitað okkar leik í kvöld að við misstum mann útaf og ég þurfti því að færa mig neðar á völlinn. Ég mun skora mörk fyrir Eyjamenn í sumar, það hlýtur að detta inn eitt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×