Enski boltinn

Mancini: Leikmenn þurfa að breyta um hugarfar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roberto Mancini.
Roberto Mancini. Nordic Photos / Getty Images
Roberto Mancini, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að hugarfarsbreytingar sé þörf hjá mörgum leikmönnum liðsins.

Síðan Mancini tók við hafa margir lýst yfir óánægju sinni með hversu lítið þeir fái að spila með liðinu. Craig Bellamy og Stephen Ireland gerðu það báðir áður en þeir fóru frá félaginu og þá hafa þeir Shay Given og Emmanuel Adebayor, sem báðir eru enn á mála hjá City, rætt þessi mál í fjölmiðlum.

„Ég spilaði sjálfur fótbolta og hagaði mér sjálfur svona. Ég skil þetta vel og þetta fer ekki í taugarnar á mér," sagði Mancini við enska fjölmiðla.

„En að sama skapi þurfa þeir að breyta um hugarfar. Ef þeir vilja vera hluti af liði sem nær árangri þurfa þeir að breyta því."

„Það er ekki eðlilegt að þriðji hver leikmaður kvarti undan því í viðtölum að hann fái ekki að spila. Þeir eiga að koma til mín og svo ég geti útskýrt þetta fyrir þeim."

„Ég vil að andrúmsloftið hér verði svipað og hjá Chelsea og Manchester United. En þar er þetta ef til vill auðveldara þar sem þessi félög hafa notið velgengni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×