Erlent

Banksy fær vinnu við gerð Simpsons þáttanna

Hinn þekkti teiknimyndaþáttur Simpsons fjölskyldan hefur ráðið breska veggkrotarann Banksy til að hanna nýja upphafstitla að þáttunum.

Það merkilega er að þótt Banksy sé heimsþekktur listamaður í veggkroti og frægur aðgerðasinni í ýmsum mótmælum víða um heiminn veit enginn hver þessi maður, eða kona, í rauninni er.

Listamaðurinn Banksy vakti fyrst athygli sem hluti af listahópnum DryBreadZ Crew í borginni Bristol snemma á tíunda áratug síðustu aldar. Hann varð síðar þekktasti veggkrotari Bretlands og raunar heimsins.

Hann er meðal annars þekktur fyrir að hafa brjotist inn í dýragarð Lundúna og skrifað þar í sjö metra háum stöfum yfir mörgæsabúrið orðin; Við erum orðnar þreyttar á fiski.

Önnur aðgerð hans vakti athygli fjölmiðla fyrir fimm árum þegar hann laumaði einu verka sinna inn á sýningu á málverkum frummanna, einkum hellateikninga hjá British Museum eða þjóðminjasafni Bretlands. Þegar forráðamenn safnsins tóku eftir þessu ákváðu þeir að gera þetta verk Banksy að varanlegum hluta sýningarinnar.

Nú er Banksy aftur kominn í sviðsljósið sem einn af aðstandendum Simpsons fjölsskyldunnar en eftir sem áður veit enginn hver maðurinn er.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×