Enski boltinn

Góður sigur Man Utd á Emirates

Elvar Geir Magnússon skrifar

Manchester United vann 3-1 útisigur á Arsenal í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni. Leikurinn var opinn og skemmtilegur og nóg af færum.

United tók forystuna eftir 33. mínútna leik en heiðurinn af því marki á kantmaðurinn Nani sem hefur verið að finna sig vel að undanförnu. Hann lék illa á varnarmann Arsenal og vippaði síðan boltanum laglega en Manuel Almunia, markvörður Arsenal, sló knöttinn í eigið mark og fær skráð á sig sjálfsmark.

Fjórum mínútum síðar bætti Wayne Rooney við marki eftir góða skyndisókn hans og Nani. Ji-Sung Park skoraði þriðja mark gestana í seinni hálfleiknum eftir ferlegan varnarleik hjá Arsenal. Thomas Vermaelen minnkaði muninn fyrir Arsenal og þar við sat.

Staðan í deildinni er nú þannig að Chelsea er á toppnum með 54 stig eftir 23 leiki, Man Utd í öðru sæti með 53 stig eftir 24 leiki og Arsenal í því þriðja með 49 stig eftir 24 leiki.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×