Enski boltinn

Heiðar og félagar komnir með sjö stiga forskot

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heiðar Helguson í leiknum í dag.
Heiðar Helguson í leiknum í dag. Mynd/Nordic Photos/Getty

Heiðar Helguson og félagar í Queens Park Rangers náðu sjö stiga forskoti á toppi ensku b-deildarinnar eftir 2-0 útisigur á Coventry í dag. Cardiff heimsækir Watford seinna í kvöld og getur aftur minnkað forskotið í fjögur stig.

Þetta var annar sigur Queens Park Rangers liðsins í röð og báðir hafa komið á móti liðum í efstu sex sætunum. QPR vann 4-0 sigur á Swansea City um síðustu helgi en Swansea er í 4. sæti en Coventry er í 6. sæti.

Heimamenn í Coventry voru sterkari aðillinn í fyrri hálfleik en náðu ekki að nýta nokkur ágæt færi sín. QPR-liðið byrjaði síðan seinni hálfleikinn á því að komast í 1-0 á 49. mínútu.

Markið skráist sem sjálfsmark á markvörðinn Keiren Westwood sem varði fyrirgjöf Kyle Walker inn í eigið mark. Tommy Smith kom QPR síðan í 2-0 með skallamarki á 61. mínútu eftir fyrirgjöf frá Adel Taarabt.

Heiðar Helguson spilaði fyrstu 89 mínútur leiksins og fékk gula spjaldið á 21. mínútu fyrir að fara inn í skallaeinvígi með olbogann á lofti. Aron Einar Gunnarsson var í leikbanni og lék því ekki með Coventry.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×