Innlent

Nauthólsvegur formlega opnaður

Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Kristján Möller og Óskar Bergsson.
Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Kristján Möller og Óskar Bergsson.
Nauthólsvegur var formlega opnuður í dag. Nýi vegurinn, sem til þessa hefur gengið undir heitinu Hlíðarfótur, liggur frá Hringbraut út í Nauthólsvík meðal annars að Háskólanum í Reykjavík og Ylströndinni.

Við opnunina sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, meðal annars að Nauthólsvegurinn væri mikil samgöngubót fyrir borgarbúa. „Með veginum mun aðgengi að fjölsóttu útivistarsvæði í Nauthólsvík, Háskólanum í Reykjavík, íþróttasvæði íþróttafélagsins Vals auk Hótels Loftleiða batna til muna. Vegurinn tengir svæðið við miðborgina og léttir á þungri umferð í kringum svæðið," sagði Hanna Birna að fram kemur í tilkynningu frá borginni.

Meðal nýjunga við framkvæmdina var að undirgöng skammt frá gatnamótum Flugvallarvegar og Nauthólsvegar voru forsteypt í einingum og flutt á staðinn. Með því sparaðist bæði tími og fjármagn. Undirgöngin og göngu- og hjólastígur meðfram Nauthólsveginum eru þáttur í uppbyggingu stígakerfis í borginni undir merkjum Grænna skrefa í Reykjavík. Stígurinn er malarborinn en verður malbikaður eins fljótt og veður leyfir.

Að lokinni athöfn var vegurinn opnaður almennri umferð. Áfram verður þó unnið við frágang á yfirborði svo sem þökulagningu, sáningu og hellulögn, og er stefnt að verklokum í júní.

Heildarkostnaður við verkið er áætlaður um 480 milljónir króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×