Fótbolti

Tannlæknar í Túnis íhuga að kæra Gallas

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Tannlæknar í Túnis eru allt annað en sáttir við franska varnarmanninn William Gallas og íhuga að kæra leikmanninn þar sem hann hafi skaðað orðspor þeirra.

Franska landsliðið undirbjó sig fyrir HM í Túnis. Þá fékk Gallas tannpínu en hann treysti ekki tannlæknum í Túnis og flaug þess í stað einkatannlækni sínum til landsins.

Þetta sætta tannlæknar í Túnis sig engan veginn við. Þeir eru brjálaðir út í Gallas og íhuga mjög alvarlega að fara í dómsmál.

"Við erum að taka öll nauðsynleg skref svo við getum kært Gallas. Hann hefur skaðað ímynd okkar mjög alvarlega," sagði Adel Ben Smida, formaður tannlæknasamtakanna í Túnis.

"Við ætlum að kenna honum lexíu þar sem hann er með fordóma út í heilbrigðiskerfið hjá okkur. Það er ekkert að því að hann hafi fengið sinn eigin tannlækni en að hann hafi sett á netið að ástæðan væri sú að hann treysti okkur ekki er ólíðandi með öllu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×