Enski boltinn

Newcastle og Everton vilja bæði fá Landon Donovan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Landon Donovan í leik með Everton á síðustu leiktíð.
Landon Donovan í leik með Everton á síðustu leiktíð. Mynd/Nordic Photos/Getty
Newcastle United ætlar að reyna að "stela" Landon Donovan af Everton í janúar en bandaríski landsliðsmaðurinn hefur áhuga á því að endurtaka leikinn frá því í fyrra og spila í ensku úrvalsdeildinni á meðan bandaríska deildin er í fríi.

David Moyes, stjóri Everton, vill endilega fá Donovan aftur á Goodison Park þar sem hann spilaði mjög vel eftir áramót í fyrra. Landon Donovan getur bæði spilað sem framherji og sem vængmaður og hann var með 2 mörk og 3 stoðsendingar í 7 leikjum með Everton í ensku úrvalsdeildinni í janúar, febrúar og mars.

Chris Hughton, stjóri Newcastle, sér Donovan hinsvegar sem besta mögulega kostinn til þess að leysa af Hatem Ben Arfa sem fótbrotnaði á dögunum og verður frá þangað til í mars.

Landon Donovan er 28 ára gamall og hefur spilað vel með Los Angeles Galaxy á tímabilinu en framundan er úrslitakeppnin í MLS-deildinni. Donovan hefur skorað 7 mörk og gefið 16 stoðsendingar í fyrstu 25 leikjum Galaxy á leiktíðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×