Enski boltinn

Fimmta jafntefli United - öll úrslitin úr enska

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
James Morrison og Michael Carrick eigast við í dag.
James Morrison og Michael Carrick eigast við í dag. Nordic Photos / Getty Images

Manchester United gerði 2-2 jafntefli við West Brom á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í dag. Þetta var fimmta jafntefli United á tímabilinu sem er þó enn taplaust eftir átta leiki.

United byrjaði mjög vel í leiknum og komst yfir með mörkum þeirra Javier Hernandez og Nani. Wayne Rooney byrjaði á bekknum en það virtist ekki koma að sök.

Svo fékk United tvö klaufaleg mörk á sig í upphafi síðari hálfleiks. Fyrst skoraði Patrice Evra sjálfsmark og svo Somen Tchoyi jöfnunarmarkið eftir að Edwin van der Sar mistókst að grípa einfalda fyrirgjöf frá vinstri.

Rooney kom inn á um stundarfjórðungi fyrir leikslok en allt kom fyrir ekki og West Brom fagnaði góðu stigi á útivelli.

Grétar Rafn Steinsson lék allan leikinn fyrir Bolton sem vann 2-1 sigur á Stoke í Íslendingaslag. Eiður Smári Guðjohnsen kom inn á sem varamaður á 77. mínútu.

Allt stefndi í jafntefli hjá liðunum þar til að varamaðurinn Ivan Klasnic skoraði sigurmarkið, eftir innkast frá Grétari Rafni. Markið kom í uppbótartíma en Klasnic hafði samt tíma til að fá tvisvar gula spjaldið eftir markið og þar með rautt.

Eiður Smári fékk tækifæri til að jafna metin með skoti úr aukaspyrnu á hættulegum stað en hann skaut í varnarvegg Bolton.

Arsenal vann 2-1 sigur á Birmingham eftir að hafa lent 1-0 undir. Jack Wilshere fékk að líta rauða spjaldið i liði Arsenal undir lok leiksins fyrir ljóta tæklingu.

Arsenal er þar með komið upp fyrir United og er í öðru sæti deildarinnar með fjórtán stig, rétt eins og United, Manchester City og Tottenham sem vann 2-1 sigur á Fulham í dag. Þetta var fyrsta tap Fulham á tímabilinu en sigurmarkið var afar umdeilt og var Mark Hughes, stjóri liðsins, brjálaður eftir leikinn.

Newcastle tókst að bjarga stigi gegn Wigan eftir að hafa lent 2-0 undir. Fabricio Coloccini skoraði jöfnunarmark Newcastle með skalla í blálok leiksins.

Þá gerðu Wolves og West Ham jafntefli, 1-1, og liðin því enn í tveimur neðstu sætum deildarinnar.

Chelsea er á toppnum með átján stig og á leik til góða gegn Aston Villa í dag.

Úrslit dagsins og markaskorarar:

Bolton - Stoke 2-1

1-0 Chung-Yong Lee (22.)

1-1 Rory Delap (48.)

2-1 Ivan Klasnic (92.)

Newcastle - Wigan 2-2

0-1 Charles N'Zogbia (22.)

0-2 Charles N'Zogbia (23.)

1-2 Shola Ameobi (72.)

2-2 Fabricio Coloccini (90.)

Wolves - West Ham 1-1

1-0 Matthew Jarvis (10.)

1-1 Mark Noble, víti (53.)

Manchester United - West Brom 2-2

1-0 Javier Hernandez (5.)

2-0 Nani (25.)

2-1 Patrice Evra, sjálfsmark (50.)

2-2 Somen Tchoyi (55.)

Fulham - Tottenham 1-2

1-0 Diomansy Kamara (30.)

1-1 Roman Pavlyuchenko (31.)

1-2 Tom Huddlestone (64.)

Arsenal - Birmingham 2-1

0-1 Nikola Zigic (33.)

1-1 Samir Nasri, víti (41.)

2-1 Marouane Chamakh (47.)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×