Enski boltinn

Carlo Ancelotti: Við vorum heppnir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea.
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea. Mynd/AP
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, viðurkenndi að sínir menn hafi haft heppnina með sér í 2-1 sigri á Blackburn Rovers í ensku úrvalsdeildinni í dag. Chelsea lenti 0-1 undir en Nicholas Anelka jafnaði leikinn og Branislav Ivanovic tryggði síðan Chelsea öll þrjú stigin með marki sjö mínútum fyrir leikslok.

„Blackburn átti að vera búið að skora áður en við skoruðum sigurmarkið þannig að við vorum dálítið heppnir. Roberts hefði getað klárað leikinn fyrir þá," sagði Carlo Ancelotti en Jason Roberts fékk dauðafæri skömmu áður en Chelsea skoraði sigurmarkið sitt.

„Það var mjög mikilvægt að vinna þennan leik því við vorum ekki betra liðið. Við vorum ekkert sérstakir og Blackburn setti okkur undir pressu og kom í veg fyrir að við spiluðum okkar fótbolta," sagði Carlo Ancelotti.

„Við vissum að þetta yrði erfitt verkefni því Blackburn er með mjög gott lið sem er líkamlega sterkt. Það var mjög mikilvægt að vinna þennan leik til þess að halda stöðu okkar á toppnum. Við erum í góðu formi en ég vonast til þess að við getum bætt okkar leik í kjölfarið á þessum sigri," sagði Ancelotti.

Ancelotti hrósaði Rússanum Yury Zhirkov fyrir hans þátt í sigurmarkinu. „Leikurinn var að stefna í jafntefli þegar Zhirkov átti frábært hlaup og bjó til sigurmarkið. Hann er að spila góðan fótbolta þessa dagana og er að vinna vel fyrir liðið," sagði Carlo Ancelotti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×