Enski boltinn

Didier Drogba með þrennu í 6-0 sigri Chelsea á West Brom

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Didier Drogba og Florent Malouda skoruu saman fimm mörk í kvöld.
Didier Drogba og Florent Malouda skoruu saman fimm mörk í kvöld. Mynd/AP
Chelsea sá til þess að nýliðar Blackpool voru aðeins á toppnum í tvo tíma því meistarnir eru komnir á toppinn eftir 6-0 sigur á West Bromwich Albion í kvöldleiknum í ensku úrvalsdeildinni.

Didier Drogba skoraði þrennu í leiknum og Florent Malouda skoraði tvö mörk í auðveldum og þægilegum heimasigri Chelsea-liðsins á slöku liði West Bromwich.

Það tók Englandsmeistara Chelsea aðeins tæpar sex mínútur að opna markareikninginn á nýju tímabili. Florent Malouda skoraði þá þegar hann fylgdi á eftir skoti John Obi Mikel í kjölfarið af aukaspyrnu Didier Drogba.

Didier Drogba kom Chelsea síðan í 2-0 með marki beint úr aukspyrnu á lokamínútu fyrri hálfleiks. Skotið fór í gegnum varnarvegginn og var af ódýrari gerðinni.

Didier Drogba kom Chelsea í 3-0 á 55. mínútu þegar hann fylgdi á eftir skalla John Terry og sjö mínútum síðar var Frank Lampard búinn að koma Chelsea í 4-0 eftir sendingu Ashley Cole og undirbúning Nicolas Anelka.

Didier Drogba innsiglaði síðan þrennuna sína þegar hann skoraði fimmta markið á 68. mínútu. Drogba byrjaði því nýtt tímabil á sama hátt og hann endaði síðasta tímabil þar sem hann skoraði þrennu í lokaumferðinni.

Florent Malouda skoraði síðan sjötta og síðasta markið í leiknum á 90. mínútu eftir stungusendingu frá Nicolas Anelka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×