Enski boltinn

Ancelotti: Það getur enginn komið í staðinn fyrir Lampard

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frank Lampard.
Frank Lampard. Mynd/AFP
Chelsea-menn endurheimta Frank Lampard í byrjunarliðið sitt í kvöld þegar liðið heimsækir Arsenal í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar. Lampard hefur ekki byrjað inn síðan í lok ágúst en hann átti að spila sinn fyrsta leik á móti Manchester United fyrir rúmri viku síðan en þeim leik var frestað.

„Það er enginn leikmaður á markaðnum sem getur komið í staðinn fyrir Frank Lampard," sagði Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea en liðið hefur leikið sjö leiki í röð án þess að vinna og hefur aðeins skorað fjögur mörk í þeim.

„Allir leikmenn hafa sína einstöku hæfileika. John Mikel Obi getur ekki skorað en er frábær varnarlega. Sömu sögu er að segja af Ramires. Michael Essien getur skorað fyrir utan teig en hann var meiddur í mánuð og er ekki kominn í sitt besta form. Hann er að koma til baka og ætti að getað hjálpað liðinu í sókninn. Ég er þó umfram allt mjög ánægður með að fá Lampard til baka," sagði Carlo Ancelotti.





Frank LampardMynd/AFP
„Það verður mikilvægt fyrir sóknarleik okkar að njóta stuðnings Lampard frá miðjunni. Það ætti að auka líkurnar á því að við skorum. Það er mjög erfitt að finna leikmann sem getur skorað 20 mörk af miðjunni. Hann er með karakter, hæfileika og mikla vinnusemi. Hann er einn af þeim sem lætur vinnu sína á vellinum tala fyrir sig og ég er hrifinn af því," sagði Ancelotti.

„Það eru frábærar fréttir fyrir okkur að fá hann til baka. Hann er heill og spenntur fyrir leiknum og það er okkur mikilvægt. Ég býst þó ekki við einhverjum ótrúlegum hlutum frá honum bara að hann skili þeirri vinnu sem hann er vanur," sagði Ancelotti.

Þess má geta að Chelsea hefur unnið síðustu sex deildarleikina sem Frank Lampard hefur verið í byrjunarliðinu með markatölunni 31-0 og hann hefur sjálfur skorað fimm mörk og gefið fimm stoðsendingar í þessum sex leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×