Enski boltinn

Hicks vill selja vogunarsjóði sinn hlut

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Núverandi eigendur Liverpool eru enn að reyna að koma í veg fyrir að félagið verði selt bandaríska eignarhaldsfélaginu NESV. Nú mun Tom Hicks ætla að selja vogunarsjóði sinn hlut í félaginu.

Málið er æði flókið. Hicks ætlar nú að reyna að selja Mill Financial-vogunarsjóðnum sinn 50 prósenta hlut í félaginu. Mill Financial mun hafa keypt hlut George Gillett, hin 50 prósentin, í ágúst síðastliðnum.

Mill Financial gæti þá greitt RBS-bankanum skuld Liverpool sem gjaldfellur í dag. Þar með væri hægt að koma í veg fyrir sölu Liverpool til NESV, eftir því sem næst verður komist.

Sky Sports fréttastofan greindi frá því nú fyrir stundu að þeir Hicks og Gillett hafi aflétt lögbanninu sem dómstóll í Texas-fylki í Bandaríkjunum setti á söluferlið í gær.

Dómstóll í Bretlandi úrskurðaði í hag Liverpool í gær og sagði að dómstólar í Bandaríkjunum hefðu ekkert með sölu ensks knattspyrnufélags að gera.

John Henry, eigandi NESV, skrifaði á Twitter-síðu sína í dag að hann muni halda áfram baráttu sinni. „Mun berjast við Mill, Hicks og Gillett sem eru að berjast fyrir að halda félaginu í dag. Þetta er þeirra síðasta örvæntingafulla tilraun til að halda félaginu."

Það er óljóst hvað verður. Hvort að stjórn Liverpool verði á undan að ganga frá sölunni til NESV og þar með greiða upp skuldina eða hvort að Hicks verði af áætlun sinni og Mills eignist þar með Liverpool að fullu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×