Íslenski boltinn

Orri Freyr: Milan er nánast orðinn eins og húsgagn á svæðinu

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Orri Freyr Hjaltalín, fyrirliði Grindavíkur.
Orri Freyr Hjaltalín, fyrirliði Grindavíkur. Mynd/Vilhelm
Orri Freyr Hjaltalín, fyrirliði Grindavíkur, var að vonum vonsvikinn þegar Grindavík tapaði sínum fimmta leik í röð í kvöld, nú 2-1 á Kaplakrika. Grindvíkingar sitja nú á botninum stigalausir.

„Nei, þetta var ekki gott, spilamennskan fannst mér þó vera á uppleið og FH er með þrælgott lið. Mér fannst við þó ekkert lakari aðilinn í dag," sagði Orri Freyr.

Næsti leikur Grindvikínga er á heimavelli gegn ÍBV en þar þurfa Grindvíkingar að næla sér í þrjú stig ætli þeir sér að verða ekki einir eftir á botninum.

„Það er náttúrulega þannig með alla heimaleiki sem við eigum, það er krafa frá öllum bæjarbúum að við tökum þrjú stig. Við höfum núna nokkra daga til að gíra okkur upp í þann leik og við komum tilbúnir í þann leik."

Óvissa var með þjálfaramál Grindvíkinga fyrir leikinn en svo fór að Ólafur Örn Bjarnason var ráðinn þjálfari. Hann tekur þó ekki við liðinu strax og mun Milan Stefán Jankovic aftur taka við þjálfun liðsins þangað til.

„Við erum samheldinn hópur og það er góður andi í honum. Við vorum ekkert að láta þetta trufla okkur neitt. Milan er nánast orðinn eins og húsgagn á svæðinu þannig að við erum öllu vanir," sagði Orri Freyr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×