Enski boltinn

Redknapp hefur áhyggjur af framtíð King

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ledley King gengur af velli í gær.
Ledley King gengur af velli í gær. Nordic Photos / Getty Images
Harry Redknapp, stjóri Tottenham, viðurkennir að hann hafi áhyggjur af framtíð Ledley King í knattspyrnunni en hann fór meiddur af velli í leiknum gegn Fulham í gær.

King hefur átt við krónísk hnémseiðsli að stríða og ekki getað æft eðlilega í mörg ár. Hann spilar ekki oftar en einu sinni í viku og æfir lítið sem ekkert inn á milli.

„Hann verður frá í einhvern tíma," sagði Redknapp um King sem varð þrítugur fyrr í þessari viku.

„Vandamálið er að hann æfir ekkert. Og þegar menn æfa ekki þá koma meiðslin. Þetta er mikil synd enda frábær leikmaður," sagði Redknapp.

„Ef ég ætla að fara út á völlinn og taka sprett upp kantinn án þess að hafa æft nokkuð þá mun ég meiðast, hvort sem það verður á lærvöðva, kálfa eða í nára."

„Og það er vanamálið - hann getur ekki æft. Þannig hefur það verið í nokkur ár og nú eru meiðslin að koma."

King og William Gallas voru miðverðir hjá Tottenham í gær en þetta var ellefta miðvarðapar Tottenham í þrettán leikjum í haust. Redknapp hefur þurft að glíma við mikil meiðsli hjá sínum varnarmönnum og ekki skánar það.

Þegar King meiddist kom Sebasien Bassong í liðið í stað King. Bassong og Gallas náðu að halda hreinu í síðari hálfleik en Tottenham vann leikinn, 2-1.

Gallas kom til Tottenham frá Arsenal í sumar en leikurinn í gær var hans fyrsti í heilan mánuð. „Hann æfði á fimmtudaginn og það var í fyrsta sinn sem hann gat æft. Ég var ánægður með hann í þessum leik og hann verður einfaldlega að spila aftur á miðvikudaginn - það er enginn annar sem kemur til greina," bætti Redknapp við.

Afar líklegt er að þeir verði í byrjunarliði Tottenham í leiknum mikilvæga gegn Inter á miðvikudagskvöldið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×