Enski boltinn

Lim skorar á stjórn Liverpool að taka frekar sínu tilboði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Liverpool fyrir framan dómhúsið í dag.
Stuðningsmenn Liverpool fyrir framan dómhúsið í dag. Mynd/Nordic Photos/Getty
Peter Lim, milljarðamæringurinn frá Singapúr, stendur fastur á sínu að vilja eignast Liverpool og hann hefur nú komið enn á ný fram og skorað á stjórn Liverpool að samþykkja frekar tilboð sitt en tilboðið frá eigendum hafnarboltafélagsins Boston Red Sox. Stjórn Liverpool mun funda um málið í kvöld.

Dómstóll í Bretlandi úrskurðaði í morgun að eigendurnir Tom Hicks og George Gillett geta ekki komið í veg fyrir söluna á félaginu á meðan að meirihluti stjórnarinnar er tilbúinn að selja.

Lim kom fram í vikunni og hækkaði fyrra tilboð sitt en stjórn Liverpoool hafði á sínum tíma valið það að semja við eigendur Boston Red Sox frekar en að taka fyrra tilboði Lim sem var á svipuðum nótum og tilboð Bandaríkjamannanna.

„Stjórn Liverpool á að skoða vel öll tilboðin sem eru á borðinu. Það er ekki nokkur vafi í mínum huga að mitt tilboð er það besta fyrir framtíð félagsins og stuðningsmanna þeirra," sagði Peter Lim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×