Enski boltinn

Gerard Houllier tekur væntanlega við Aston Villa á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gerard Houllier með enska bikarinns sem hann vann með Liverpool.
Gerard Houllier með enska bikarinns sem hann vann með Liverpool. Mynd/AFP
Gerard Houllier, fyrrum stjóri Liverpool og Lyon, mun væntanlega taka við stjórastöðunni hjá Aston Villa á morgun en hinn 63 ára gamli Frakki fór í viðtal vegna starfsins eins og þeir Kevin McDonald og Alan Curbishley. Enski fjölmiðlar sameinast um að eigna Houllier stöðuna.

Martin O'Neill sagði óvænt af sér sem stjóri Aston Villa í águst eftir fjögurra ára starf en aðstoðarmaður hans, Kevin McDonald, tók við liðinu tímabundið. McDonald byrjaði vel með sigri í fyrsta leik en liðið tapaði síðan tveimur deildarleikjum í röð og féll út úr Evrópukeppninni. Leikmennirnir vilja samt að hann fái að halda áfram samkvæmt frétt BBC.

Houllier mun tala við franska knattspyrnusambandið og tilkynna þeim það að hann ætli að hætta sem tæknilegur ráðgjafi en sá fundur verður ekki fyrr en Fernando Duchaussoy, forseti franska sambandsins, snýr aftur frá Bosníu þar sem Frakkar mæta heimamönnum í undankeppni EM í kvöld.

Gerard Houllier stýrði Liverpool frá 1998 til 2004 en var síðast með Lyon á árunum 2005 til 2007. Hann þjálfaði franska landsliðið áður en hann kom til Liverpool. Liverpoll vann bikarþrennu undir hans stjórn vorið 2001; enska bikarinn, enska deildarbikarinn og UEFA-bikarinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×