Enski boltinn

Capello: Við verðum að spila án ótta

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Pressan er á Rooney og Capello.
Pressan er á Rooney og Capello. AFP
Það fara fjölmargir leikir fram í undankeppni EM 2012 í kvöld og ljóst að margra augu verða á leik Englands og Búlgaríu.

Enska landsliðið beið skipbrot á HM í Suður-Afríku undir stjórn Ítalans Fabio Capello. Ítalinn er þrátt fyrir það enn við stjórnvölinn og fær annað tækifæri með enska liðið.

Það hefur mikið gengið á síðan HM lauk. Einhverjir leikmenn eru hættir að gefa kost á sér, umræðan í kringum landsliðið hefur ekki verið góð og Capello hefur mátt þola margs konar persónulega gagnrýni.

Hann stefnir á að yngja liðið upp en hefur engu að síður skilið unga og efnilega leikmenn fyrir utan hópinn. Það er því mikil pressa á Capello í kvöld.

„Það er hluti af starfinu að vera undir pressu. Þegar ég vinn leiki er ég besti þjálfari í heimi en þegar ég tapa þá er ég sá lélegasti," sagði Capello sem hefur marga fjöruna sopið á löngum ferli.

„Auðvitað lærði ég mikið af HM. Maður lærir alltaf með hverri reynslu. Ég hef breytt ýmsu en ekki miklu. Við verðum samt að leika án ótta. Mér finnst leikmennirnir taka vel á því á æfingum, þeir eru með fínt sjálfstraust og vonandi skilar það sér inn í leikinn. Búlgarar verða erfiðir enda með fínt lið sem kann þá list vel að verjast. Við verðum samt að vinna og ég vona að stuðningsmennirnir standi með okkur."

Capello fékk góð tíðindi um helgina er Wayne Rooney skoraði loksins. Reyndar skoraði hann aðeins úr víti en mark er mark og þetta mark létti pressunni örlítið af framherjanum.

„Ég var að fylgjast með þessum leik. Hann var góður, hann er kominn til baka og ég gleðst yfir því að hann hafi skorað," sagði Capello sem hótaði reyndar að hætta að gefa viðtöl eftir mjög óvægna meðferð sem hann fékk hjá slúðurblaðinu The Sun á dögunum.

„Rooney hleypur mikið á vellinum og hann má fara þangað sem hann vill. Rooney mun spila þennan leik gegn Búlgörum með stæl."

Capello hefur verið mikið gagnrýndur fyrir það hvernig hann lokaði dyrunum á David Beckham. Hann hefur dregið í land þar og ítrekaði aftur í gær að dyrnar stæðu opnar fyrir Beckham eins og aðra leikmenn landsliðsins.

Phil Jagielka, leikmaður Everton, mun væntanlega leika í miðju ensku varnarinnar þar sem vantar bæði John Terry og Rio Ferdinand. Capello segist vera langt kominn með að velja byrjunarliðið.

"Joe Hart verður í markinu. Svo eru það Rooney, Gerrard, Gareth Barry, Ashley Cole, Glen Johnson og Jagielka. Ég er líklega búinn að velja tíu leikmenn í liðið. Það er smá vafi með eitt sæti," sagði Fabio Capello.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×