Enski boltinn

Owen klæðist Liverpool-treyjunni á ný

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Michael Owen.
Michael Owen. Nordic Photos / Getty Images

Michael Owen mun spila í góðgerðarleik Jamie Carragher um helgina og klæðist þá Liverpool-treyjunni á nýjan leik.

Owen og Carragher eru góðir vinir enda spiluðu þeir lengi saman hjá Liverpool.

Stuðningsmenn félagsins hafa þó margir ekki fyrirgefið Owen fyrir að fara til Real Madrid á sínum tíma. Ekki skánaði það þegar hann gekk í raðir erkifjendanna í Manchester United í fyrra.

Í millitíðinni lék hann með Newcastle og hlaut aldrei neitt sérstaklega góðar viðtökur þegar hann sneri aftur á Anfield.

„Ég vona að hann fái ekki slæmar móttökur nú," sagði Carragher. „Því hann á skilið að honum sé sýnd virðing. Hann gerði margt mjög gott fyrir Liverpool."

„Hann var frábær leikmaður og má bera hann saman við alla þá stærstu í sögu félagsins."

Carragher skilur af hverju hann ákvað að fara til United. „Þá fékk hann tækifæri til að spila með einu stærsta félagi heim og það var erfitt fyrir hann að hafna því. Ferillinn hans var á hraðri niðurleið og viðurkennir hann það sjálfur."

„Hann varð að gera það sem var rétt fyrir sig og fjölskyldu hans."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×