Enski boltinn

Berbatov með tvö í sigri Man Utd gegn Bolton

Elvar Geir Magnússon skrifar
Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld.

Dimitar Berbatov átti stjörnuleik fyrir Manchester United og skoraði tvö mörk þegar liðið vann 4-0 útisigur á Bolton í kvöld.

Með sigrinum komst United aftur á topp deildarinnar, er stigi á undan Chelsea. Manchester United og Chelsea mætast einmitt í risaslag um næstu helgi.

Fyrsta mark leiksins á Reebok-vellinum var vægast sagt stórfurðulegt. Jlloyd Samuel setti þá boltann af yfirvegun í eigið mark, kláraði færið eins og topp-sóknarmaður. Enn eitt sjálfsmarkið sem mótherjar United skora gegn þeim.

Í seinni hálfleik bætti Berbatov við marki eftir mistök hjá Jussi Jaaskelainen, markverði Bolton. Jaaskelainen hélt ekki skoti frá Ryan Giggs og Berbatov átti ekki í vandræðum með að skora. Sóknarmaðurinn búlgarski bætti svo öðru marki við eftir sendingu frá Nani áður en varamaðurinn Darron Gibson innsiglaði sigurinn með þrumufleyg sem fór í slá og inn.

Rio Ferdinand og Wayne Rooney voru ekki í leikmannahópi United í dag. Þeir voru hvíldir fyrir komandi leik gegn FC Bayern í Meistaradeildinni. Grétar Rafn Steinsson var ekki með Bolton þar sem hann tók út leikbann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×