Enski boltinn

Agger: Ég er ánægður hjá Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Steven Gerrard og Daniel Agger, til hægri.
Steven Gerrard og Daniel Agger, til hægri. Nordic Photos / Getty Images
Daniel Agger neitar því að hafa gagnrýnt Roy Hodgson knattspyrnustjóra eins og haft var eftir honum víða í enskum fjölmiðlum í gær.

Ummæli Agger voru tekin upp úr dönskum dagblöðum sem aftur höfðu þetta eftir viðtali sem dönsk sjónvarpsstöð tók við Agger eftir leik United og Liverpool um síðustu helgi.

„Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með blöðin í Danmörku því ég ræddi aldrei við þau. Ég svaraði aðeins þeim spurningum sem ég var spurður að í sjónvarpsviðtalinu," sagði Agger í viðtali á heimasíðu Liverpool.

„Vandamálið er að spurningarnar birtust aldrei í blöðunum - bara svörin. Svo settu blöðin fram sínar eigin spurningar við svörin og útkoman var algjörlega röng. Þess vegna varð ég fyrir svona miklum vonbrigðum."

„Sem dæmi má nefna þau ummæli sem eru höfð eftir mér að ég vilji ekki gefa langar sendingar. Í sjónvarpsviðtalinu var ég spurður hvað ég þyrfti að gera til að komast aftur í liðið og ég gaf í skyn að ég þyrfti að gefa fleiri langar sendingar. Ég sagði að ég myndi ekki gera það vegna þess að ég er ekki þannig leikmaður. Þaðan eru þessi ummæli komin."

„Í rauninni tel ég að við spilum góða knattspyrnu og það sýndum við gegn bæði Arsenal og Manchester United."

Og hann segist vera ánægður í herbúðum Liverpool. „Ég hef tekið þátt í öllum leikjum tímabilsins. Auðvitað finnst mér það leiðinlegt þegar ég er ekki í liðinu en ég hef verið hér í fimm ár og mér líkar vistin vel. Ég væri ekki búinn að vera hér svo lengi ef það væri ekki tilfellið. Ég er enn ánægður og mun halda áfram að berjast fyrir mínu sæti í byrjunarliðinu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×